154. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2024.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

139. mál
[12:10]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Herra forseti. Það eru ýmsir fletir á þessu máli sem er áhugavert að velta upp og það er svona hvernig litli maðurinn í samfélaginu sem tekur lán er settur skör lægra en þeir sem eru að veita lánið og hvað jafnvægið í þessum málum er undarlegt. Þegar stóru peningarnir eiga í hlut er mikið talað um bankaleynd, það er ekki hægt að veita upplýsingar, það þarf að toga upplýsingar, en ef það er litli maðurinn þá er bara sérstök stofnun sem safnar upplýsingum. Maður hefur velt þessu fyrir sér, maður er að fara yfir þetta mál og hvernig þessir hlutir ganga fyrir sig. Ef maður fer inn á heimasíðu þá þarf maður að samþykkja að safnað sé upplýsingum um mann, það er kaka, en um leið og maður tekur lán þá virðist maður vera orðinn sjálfkrafa eitthvert viðfang og söluvara. Það þarf að vera einhvern veginn þannig að maður geti þá bara afþakkað það, að þetta gerist ekki sjálfkrafa.

Við erum ekki að horfa á eitthvert fyrirtæki, ekki endilega að kenna því um, heldur eru þetta auðvitað stjórnvöld. Þau vilja hafa þetta svona. Þau vilja hafa þennan hátt á og þau stjórna hér ríkisbankanum Landsbankanum og eiga góðan hlut, enn þá alla vega, í Íslandsbanka, og þessi háttur er sá háttur sem stjórnarflokkarnir allir sem einn, Vinstri græn, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, vilja hafa. Þeir vilja safna þessum upplýsingum og opna þessa heimild á fólk. Ég er bjartsýnn á það að þeir fari frá í næstu kosningum og við fáum hér þetta mál í gegn og mörg önnur, t.d. frjálsar handfæraveiðar, svo eitthvað sé nefnt, að Ísland verði bara skemmtilegra land.

Svona mál er svolítið áhugavert að bera saman við t.d. að það varð allt vitlaust fyrir ári síðan í þingsal þegar verið var að safna upplýsingum um þingmenn sjálfa, eða réttara sagt ættingja þeirra. Það var að þeir voru settir á lista, meira að segja kornabörn nánast, vegna þess að þeir áttu í einhverjum tengslum við ráðamenn og voru komin þá börn, jafnvel 14 ára börn, í áhættuhóp yfir hryðjuverkaógn og stjórnmálaleg tengsl og það þyrfti þá að fara sérstaklega yfir þá þætti. Ég hefði vænt þess að það væri einmitt meiri umræða í ljósi þeirrar miklu umræðu sem var um þingmenn sjálfa og upplýsingaöflun þeirra, að þeir voru bara allt í einu orðnir sjálfkrafa og fjölskyldan var bara orðin hér viðskiptaerindi eða viðskiptatækifæri fyrir einhverja að safna upplýsingum og veita þeim út og suður.

Þetta ástand sem hér er er auðvitað eitthvað sem er rétt að staldra við og staldra við þessa umræðu og þá sérstaklega að stjórnarflokkarnir vilji viðhafa þessa upplýsingaöflun. Ef maður skoðar t.d. Landsbankann, sem vildi ekki veita upplýsingar eða hélt upplýsingum leyndum fyrir ráðamönnum, hann er síðan að safna upplýsingum um Jón og Gunnu úti í bæ, þannig að þetta mál er vert að skoða í samhengi við annan gang þjóðlífsins, hvernig það er allt í lagi að safna öllu um litla manninn, hafa eftirlitsmyndavélar og dróna og allt það jafnvel á vinnustöðum hans, en síðan ef það er komið að stórlöxunum að þá er komin alls konar leynd, bankaleynd, persónuvernd og ég veit ekki hvað. Þannig að þetta mál er til bóta og sérstaklega að það er alveg óásættanlegt að það sé hægt að setja fólk á svartan lista vegna ólöglegrar lánastarfsemi. Það er komið út fyrir allan þjófabálk.